Flugstrætó hættir starfsemi sunnudaginn 24. júlí.

Sýsli – Ferðir og ökukennsla ehf hafa nú í sumar verið með flugstrætó í rekstri á Akureyri í tilraunaskyni. Má segja að fyrirtækið hafi rennt blint í sandinn með þessa tilraun þar sem ekki var vitað neitt um hver raunveruleg þörf fyrir verkefninu væri.

Nú er hinsvegar komið að leiðarlokum í þessu verkefni í bili. En við munum loka verkefninu sunnudaginn 24. Júlí 2022 og verður síðasta brottför vagnsins frá tjaldsvæðinu farin kl 18:10 þann dag og frá flugvelli kl 19:15.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að við ákváðum að ljúka verkefninu á þessum tímapunkti:

  • Notkun flugstrætó hefur verið mjög lítil og hvergi nærri því marki að standa undir neinum kostnaði við verkefnið. Erlendir ferðamenn hafa verið um 95% farþegar en nánast engir innlendir ferðamenn hafa verið að nýta sér þjónustuna en nauðsynlegt er að íbúar svæðisins noti þjónustuna einnig til þess að hún standi undir sér.
  • Mikið bar á því að Akureyringar væru ósáttir við að þurfa að greiða fyrir þjónustuna en það skal tekið fram að verkefnið fékk enga fjárhagslega styrki eða niðurgreiðslur nein staðar frá en var allt rekið að kostnaði Sýsli – ferða og ökukennslu ehf. Gefur það náttúrulega augaleið að fyrirtækið geti ekki verið að reka þjónustuna án þess að taka greiðslu fyrir uppí kostnað
  • Fyrirtækið hefur einnig verið óheppið með viðhald á strætisvagninum sem notaður var í verkefnið en nokkuð af óvæntum bilunum komu upp í honum sem hafa bæði verið kostnaðarsamar en einnig gert það að verkum að grípa hafi þurft til þess að setja varabíl í verkið eða fella niður ferðir.
  • Undirritaður og starfsfólk fyrirtækisins lentu oft í áreiti frá aðilum sem lagt höfðu bifreiðum í hópbifreiðastæði við flugvöllinn þrátt fyrir merkingar í stæðinu, en þetta er vandamál sem hefur varað lengi fyrir bæði hópbifreiðir og flugstrætó. Þetta er náttúrulega framkoma sem fyrirtækið getur ekki sætt sig við.
  • Einnig hefur borið á áreiti frá öðrum ferðaþjónustuaðilum og nokkrum leigubifreiðastjórum í garð starfsfólks fyrirtækisins þar sem þessir aðilar eru á móti þjónustunni eða framkvæmd hennar og er það einnig framkoma sem fyrirtækið geti ekki sætt sig við.
  • Stopul flugáætlun hefur gert það frekar erfitt að halda þjónustunni úti almennilega en það er nánast undantekningartilfelli að flug séu á réttum tíma ef þau á annað borð fara í loftið.
  • Einnig varð minna um millilandaflug en áætlað var í sumar og hefur það líklega haft þau áhrif að færri farþegar nýttu sér þjónustuna en hefði verið ef flugáætlunin hefði staðið.
  • Erfitt hefur gengið að manna vagninn í sumar þar sem skortur er á bifreiðastjórum á öllu landinu.

Ljóst er að núverandi fyrirkomulag er ekki að virka í þessari þjónustu. Munum við því nota næstu mánuði til þess að fara í frekari vinnu og skoða það hvort hægt sé að veita þessa þjónustu með öðru formi og mun fyrirtækið einnig fara í frekari vinnu við það að leita sér styrkja í verkefnið, því það er alveg ljóst að ekki er hægt að halda verkefni sem þessu í gangi með almennilegu móti nema að setja í það talsvert fjármagn og eru Sýsli – ferðir og ökukennsla ekki að fara út í það að skuldsetja sig fyrir verkefninu. Það er samt ennþá skoðun starfsmanna fyrirtækisins að þetta sé verkefni sem gæti gengið í framtíðinni sé haldið rétt á spöðunum og sé nægilegt samstarf um það í ferðaþjónustugeiranum á Akureyri.

Upprunalega gerðum við ráð fyrir að halda verkefninu gangandi út júlí, en atburðir í persónulegu lífi okkar hjóna gera það einnig að verkum að ákveðið var að stöðva þjónustuna nú þegar.

Við viljum samt sem áður þakka Akureyrarbæ, Icelandair, Isavia og Niceair fyrir það samstarf sem hefur verið um verkefnið. Það er von okkar að með tilkomu frekari millilandafluga á næsta ári að það geti orðið frekari rekstrargrundvöllur fyrir þessa þjónustu, í hvaða mynd sem hún kunni að vera.

Þeir farþegar sem áttu bókað far eftir sunnudaginn 24. Júlí 2022 munu fá farmiða sína endurgreidda að fullu.

Við þökkum þeim viðskiptavinum sem hafa nýtt sér þjónustuna kærlega fyrir það, og vonumst við til þess að geta þjónustað ykkur aftur í framtíðinni.

 

Jónas Þór Karlsson

Eigandi Sýsli – ferða og ökukennslu ehf